Hvers vegna tókuð þið Guð frá okkur?

     Hér fyrir neðan er grein sem skrifuð var af íslenskri konu og birtist í tímaritinu Aftureldingu 1. mai 1965. Á þessi grein fullvel upp á pallborðið hjá fólki í dag vegna þess að margt sem greinarhöfundur talar um á vel við okkar tíma. En það er tengt kristilegu uppeldi æsku landsins og að dregið hefur verið úr kristnifræðikennslu og kristinni innrætingu í grunnskólum landsins.

    Vandamál æskunnar í landi okkar er lýðum Ijóst. Það er sorglegt, að svo gullmyndarlegur æskulýður, sem íslenzk æska er, skuli vera svo rótlaus og reikandi, sem raun ber vitni. En sjálfrar orsakarinnar er ekki að leita hjá hinum ungu, heldur hvernig búið er í pottinn fyrir þá í heimilunum og skólunum. Flest íslenzk heimili í dag, eru guðvana heimili. Þegar skólarnir taka svo við þessum hálfþroskuðu unglingum, sem ekki hafa heyrt talað um Guð í heimilum sínum, nema þá helzt á þann veg, að einlæg Guðs trú, eða persónuleg trúarreynsla hefur verið gerð hlægileg, þá verða þeir eins og rótlaus blóm, sem stormurinn hrekur til og frá.

    Svo koma framhaldsskólarnir, sem virðast vinna markvisst að því að taka Guð frá nemendunum. Ofan á þetta koma svo bókmenntirnar og útvarpið. Allt saman leggst á sömu sveif, að ræna trúnni frá hinum ungu.

    Ungir menn, myndarlegir dragast upp í fangelsum þessa lands. Mér hefur verið sagt, að þeir skipti hundruðum, sem gangi lausir, sem málefnalega hefðu þó þurft að vera undir lás komnir, en fangelsin eru full fyrir. Ég veit mörg dæmi þess, að þegar þessir óhamingjusömu menn hafa talað við þann undir fjögur augu, sem þeir bera trúnað til, hafa þeir játað, að öll barns- og unglingsárin hafi liðið svo fram, að aldrei hafi þeim verið bent á það, að trúin á Guð geti gefið ungum manni kjölfestu.

    Er þetta satt, sem hér stendur?" sagði einn af þessum óhamingjusömu mönnum, við þann sem þetta ritar nú fyrir stuttu, þegar hann benti á vissa ritningargrein, sem hann hafði undirstrikað með rauðum blýanti, rétt áður en ég kom, en hann hafði beðið mig að koma til sín, eftir að hann hafði fengið leyfi yfirvalda til þess. Ritngargreinin, sem hann hafði strikað undir, var um fyrirgefandi náð Guðs í Jesú Kristi. Ég spurði hann, hvort hann hefði aldrei heyrt talað um það, þegar hann var barn og unglingur, að Guð væri miskunnsamur og kærleiksríkur, eins og þessi ritningargrein talaði um. „Nei," sagði hann, um leið og þungt andvarp sté frá brjósti hans. Væri þetta bara einstakt dæmi, fyndist mér að hægt væri að bera það, en það er ekki eitt, þau eru þúsund og aftur þúsund svona dæmi í þjóðfélagi okkar og það frá heimilum, sem við mundum ekki trúa, ef við rækjum okkur ekki á hina köldu staðreynd.

    Það var alveg eins og það hefði getað verið rödd einhvers unga mannsins eða stúlkunnar í röðum okkar óhamingjusömu íslenzku æsku, sem gat að líta í „Göteborgsposten" nú fyrir stuttu. Hróp ungu stúlkunnar, sem skrifar það, er eins og rödd í eyðimörku. Unga stúlkan beinir sínum sárbeittu orðum til þeirra, sem bera ábyrgð á uppeldi æskunnar þar í landi. Við leyfum okkur að taka það upp, hér á eftir, sem hún segir:

    „Þið kvartið yfir hjáguðadýrkun okkar æskufólks. Ykkur finnst hún vera hræðileg. Og það er hún líklega. Þið segist ekki geta skilið, hvers vegna við ungar stúlkur, grátum og æpum, þegar við sjáum „Bítlana" til dæmis! Við skiljum undrun ykkar yfir þessu, að vissu marki, því að við viljum þetta ekki, innst inni. Allt fyrir það getum við ekki útskýrt, hvers vegna við gerum þetta. En eitt er víst, að þið hafið ekki gefið okkur neitt betra. Þið hafið gert allt til þess, að taka frá okkur þann Guð, sem við trúðum á, þegar við vorum börn. Þið fækkið kennslustundum í kristnum fræðum, og takið burtu morgunbænirnar í skólunum. Það eruð þið, sem framleiðið og flytjið inn í landið hinar sóðalegu kvikmyndir og skrifið hinar saurugu ritsmíðar í blöð og sorprit. Þið, sem ættuð þó að vera fyrirmynd okkar. Það eruð þið, sem berið ábyrgðina á því að eggja ímyndun okkar, að kynlífið sé það eina, sem veiti æskunni hamingju. Þið hafið skapað þann heim, sem við eigum að alast upp í, til þess að verða menn og konur, sem dreymir um að lifa hamingjusömu lífi. En komi það svo fyrir okkur, að við förum afleiðis í lífinu, er allri skuldinni skellt á okkur — æskufólkið.

    Við viljum ekki kvarta yfir þjóðfélaginu í heild, heldur yfir þeim mönnum sem bera ábyrgðina á því, hvernig komið er. Hvers vegna getið þið ekki skilið það, að þið eruð samtíðarmenn okkar? Hvers vegna getið þið ekki skilið það, að þið hafið farið rangt að þegar um uppeldi okkar er að ræða?

    Við viljum ekki eyða lífi okkar í tómleika.   Við viljum lifa hreinu lífi sem hefur ákveðið og fast markmið. En við getum það ekki, vegna þess að við eigum engan grundvöll til að byggja líf okkar á. Hvers vegna tókuð þið frá okkur fyrirmyndina og velsæmið? Hvers vegna urðum við að tilbiðja unga menn, með langt hár, sem ekkert hafa að gefa okkur? Hvers vegna tókuð þið Guð frá okkur, sem við lærðum að elska í sunnudagaskólanum?

Pella.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband