Hugsar Guð um dýrin? Endurbirt grein úr Aftureldingu 1969

    Heyrt hef ég einstaka menn halda því fram, að svo mundi ekki vera.  En ég hef ávallt verið annarrar skoðunar, og trúi því fastlega, að Guð hugsi um dýrin.  Og ég hef þóst sjá þess ljósan vott oft og mörgum sinnum.

    Sú er venja í Breiðafjarðareyjum, að bændur þar flytja á vorin sauðfé sitt til meginlandsins, og sækja það svo aftur á haustin í réttum.  Faðir minn bjó í Bjarnareyjum og flutti fé sitt að Grænanesi undir Klofningi, en þangað er skemmst leið til lands úr Bjarnareyjum.

    Á þeim árum bjó í Grænanesi Helgi Dagsson með konu sinni og dóttur.  En af því Helgi gerðist þá aldraður, brá hann búi, fluttist til Reykjavíkuv og gróf sig þar, eins og fleiri, sem þangað flytja í fjölmennið.  Varð enginn til þess að taka kotið, er Helgi flutti þaðan, og stóð það í eyði um sumarið.

    Um hausíið, er við Bjarneyingar fórum til lands að sækja sauðfé okkar, brugðum við frá fornri venju að lenda í Grænanesi, en stefndum í þess stað að Langeyjarnesi, sem var næsti byggður bær þar á ströndinni.  Við komum svo snemma til lands, að ég sá að mér mundi veitast nægur tími til berjatínslu.  En kunnugt var mér um frá fyrri tíð, að ber voru hvergi nærtæk. og mundi ég ekki þurfa að leita þeirra fyrr en uppi á Klofningi.  Þó lét ég það ekki aftra mér og lagði þegar af stað upp eftir.  Þegar upp á Klofning kom var þar gnægð berja, en lítils hafði ég neytt af þeim, er mig tók mjög að þyrsta.  Mér var kunnugt um, að vatn var þar hvergi nærri, og lét mér það líka á sama standa, því að berin mundu slökkva þorstann, neytti ég nógu mikils af þeim.  En því fór mjög fjarri.  

    Eftir því sem ég neytti berjanna lengur, magnaðist þorstinn meir og meir, og kvaldi mig svo, að mér fannst ég ekki geta á heilum mér tekið.  Þorstann varð ég að slökkva á einhvern hátt, hjá því varð ekki komizt.  En jafnframt skaut því upp í huga minn, eða eins og því væri hvíslað að mér, að nothæft drykkjarvatn væri næst að fá í brunninum í Grænanesi.  Þar var lítil uppsprettulind hlaðin upp að innanverðu með grjóti.  Og þangað fannst mér ég verða að komazt sem allra fyrst.  Þar með var berjatínslunni lokið að sinni og ég tók til fótanna niður að sjó.

    Þcgar ég kom að brunninum, eða lindinni, brá mér ekki lítið í brún, því að þar var kind niðri í, sem mændi til mín biðjandi augum.  Og þó að langt sé síðan finnst mér ég enn þá sjái þessi augu, eins og þau mændu upp á mig, sárbiðjandi um hjálp.  Ég hafði skjót handtök og dró kindina upp úr.  Þetta var fullorðin ær, en svo var hún stirð orðin og máttfarin, að hvorki gat hún borið fyrir sig fæturna né staðið í þá, og tæplega að hún héldi höfði.  Vegna þess hve brunnurinn var þröngur niður, hafði ærin ekki fallið dýpra en svo, að vatnið náði henni á miðjar síður.  Og þarna hafði hún verið skorðuð, Guð veit hve lengi, án þcss að geta nokkura björg sér veitt, aðra en þá sem hún náði til með munninum.  En þar var allt nagað til moldar á örlitlum bletti, sem hún hafði náð til, svo að auðsætt var, að þarna hafði hún kvalizt nokkuð lengi.

    Ég reyndi að hlynna að ánni eftir því sem ég hafði vit á; néri hana eins og ég bezt gat og vatt vatnið úr ullinni, reytti gras og tróð upp í hana. Með því eina móti tókst mér að fá hana til þess að éta það.  Ég náði mér í stóra skel, mjólkaði í hana það litla sem var í ánni og hellti því svo ofan i hana.  Við það virtist hún hressast ofurlítið, en þó ekki svo, að hún gæti sér neina björg veitt.

    Langa stund var ég að stumra yfir ánni, og reyndi allt sem ég gat upphugsað henni til bjargar.  Ég tók fyrst eftir því, hvað tímanum leið, er ég varð þess var, að farið var að rökkva.  Sá ég þá að berjatíminn var tapaður, en merkilegt þótti mér það, að þorstanum hafði ég gleymt með öllu, og ekkert til hans fundið frá því ég kom að brunninum, og sá ána þar niðri í.  Ég hélt svo heim að Langeyjarnesi til félaga minna en þar ætluðum við að gista um nóttina.

    Þegar þangað kom veittu menn mér átölur fyrir „drollið", er þeir nefndu svo.  En þegar ég hafði sagt þcim sögu mína, sem þeir hlustuðu hljóðlátir á, og sumpart var sögð mér til afsökunar, kom húsbóndinn, Jónas Sigurðsson, til mín, klappaði á öxl mér og mælti glaðlega: „Þú verður lánsmaður, kunningi; það bregst mér ekki.  Það er áreiðanlega lánsmerki að vera góður við dýrin, og sýna nærgæmi og nákvæmni í sambúðinni við þau!"

    Daginn eftir sótti eigandinn ána og tókst að hjúkra henni svo, að hún náði sér aftur.  Um þessar slóðir (í Grænanesi) var mjög fáförult og því sennilegt, að ánni hefði alls engin hjálp komið, fyrr en þá um seinan, ef þorstinn hefði ekki knúið mig til þess að leita mér svölunar þarna í brunninum.  Hver vildi nú efast um að Guð hafi verið þarna að starfi og ég verkfæri í hendi hans?  Hví þyrsti mig svona mikið, og hví var ég rekinn, svo að segja ósjálfrátt, alla leið ofan af Klofningi og niður að brunninum í Grænanesi?  

    Hver var það annar en Guð, sem stjórnaði mér þá, og lét mig bjarga einum af smælingjum hans frá því að verða hungurmorða?  Ég hef aldrei verið í nokkrum minnsta vafa um þetta.  Og sannarlega heyrir Guð hjartslátt málleysingjanna og veit um líðan þeirra, engu síður en okkar mannanna, sem teljum okkur dýrunum æðri. Ekkert vil ég um það dæma, hvort að orð Jónasar bónda hafi á mér ræst en því vil ég óhikað beina til þín, lesari góður:  Það er lánsmerki að vera góður við dýrin, og sýna þeim alla þá nœrgætni, sem kostur er á.  Enginn sannur maður iðrast eftir því.

Aftureldimg 1. júní 1969.  Sigurður Sveinbjörnsson.


mbl.is Blessaði bæði dýr og menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband