Verður lagning sæstrengs til Englands til hagsbóta fyrir Íslenska neytendur?

Það er margt sem spilar inn í þegar meta þarf arðsemi lagningar sæstrengs milli Íslands og Englands.  Styrkja þyrfti Íslenska dreifikerfið ef það á að geta sinnt raforkuflutningi að hugsanlegum landtökustað sæstrengs.  En staðsetning landtökustaðarins mundi hafa þarna einhver áhrif.  Að vísu þarfnast dreifikerfið nú þegar mikilla úrbóta víða um landið en þarna væri verið að tala um miklar framkvæmdir og dýrar.  Ekki síst ef byggja þarf fleiri virkjanir ef farið væri út í raforkutengingu milli landanna tveggja.  Þarf engum blöðum um það að fletta að eyðilegging á fallegum náttúruperlum með aukinn ferðamannastraum til landsins í huga og dálæti landans á fegurð Íslenskrar náttúru mundi vart falla í góðan jarðveg hjá landsmönnum.

Arðsemi Landsvirkjunar mundi ef til vill batna með tilkomu sæstrengs svo fremi sem lagning og fjármögnun sæstrengs gengur upp og að áhætta af verkefninu sé á erlendum fjárfestum og fyrirtækjum en ekki á ríkissjóði.  Landsvirkjun hefði kost á að nýta affall uppistöðulóna sem kemur vegna offsöfnunar af vatni og nýta það til raforkuframleiðslu og sölu erlendis.  Hægt væri að auka rafmagnsframleiðslu Landsvirkjunnar með aukinni notkun vindorku, sem mundi sennilega ekki falla öllum vel í geð því vindmyllur geta verið lýti á ásýnd landsins og valdið hljóðmengun séu þær of nálægt byggð.  En vindmyllur mætti eflaust reisa þar sem sátt ríkir um og þá jafnvel á fáséðum stöðum uppi á hálendi.

Það sem er mjög mikilvægt í þessu sambandi er hvort hagur Íslenska ríkisins eflist við þetta og ekki síst hagur neytenda, fólksins í landinu.  Þrátt fyrir sterkar vísbendingar af ábata af lagningu sæstrengs til Englands, þá geta verkefninu fylgt aðrir áhrifaþættir sem gætu haft neikvæð áhrif á innlenda neytendur.  Vegna stærðarmismunar á löndunum tveimur og heildarraforkuflutnings sæstrengs af heildar raforkunotkun beggja landanna, væri líklegt að innlent raforkuverð mundi þokast nær því sem er í Englandi.  "Raforkuverð er lágt á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd og var t.d. um 45% lægra en í öðrum löndum Evrópusambandsins árið 2012"  (Hörður Árnason, 2013)

Það er því nokkuð ljóst að neytendur muni bera þarna skarðan hlut frá borði ef stjórnvöld komi ekki þarna inn í með einhvers konar mótvægisaðgerðir.  Samkvæmt ritinu Markaðspunktar sem Arion Banki gaf út 16. júlí 2015 kemur fram að "ef sæstrengur verður lagður myndi heildsöluverð raforku hækka að öllu óbreyttu.  Rætt hefur verið um að landsvirkjun gæti fengið 80 bandaríkjadollara á MWst. tæpar 11 þúsund krónur, sem er um tvöfalt hærra heldur en heildsöluverðið sem íslenskum heimilum býðst í dag.  Slík hækkun myndi þó hækka rafmagnsreikning heimila talsvert minna eða um 40% ef við gerum ráð fyrir óbreyttum dreifingarkostnaði.  Ef heildsöluverð myndi svo þrefaldast næmi hækkunin 78% og verð á MWst með flutningi og sköttum væri um 30 þúsund krónur, sem er svipað og að meðaltali í evrópskum höfuðborgum".  Til þess að koma til móts við innlenda neytendur vegna stórhækkaðs rafverkuverðs hefði ríkisvaldið þrjár leiðir samkvæmt riti Arion Banka:  Í fyrsta lagi gætu framleiðendur og veitur innanlands gert langtímasamninga um raforku áður en kemur til lagningar sæstrengs.  Í öðru lagi er hægt að lækka eða afnema 24% virðisaukaskatt á raforku og í þríðja lagi er hreinlega hægt að niðurgreiða raforku með hluta af þeim ágóða sem sæstrengur skilar ríkinu".

Neðangreindar tillögu Arion Banka geta reynst hæpnar ef ekki verður um að ræða umtalsverðan hagnað ríkisins af rekstri sæstrengs.  Þessari framkvæmd fylgja einnig ýmsir óvissu þættir sem áhrif geta haft á hagkvæmni slíkrar stórframkvæmdar.  Í nýlegri skoðanakönnun sem rit Arion Banka greinir frá kemur fram að 67% þeirra sem tóku afstöðu eru á móti lagningu raforkusæstrengs til Bretlands.  "Niðurstöður þessarar könnunar endurspegla tortryggni og efasemdir gagnvart lagningu sæstrengs meðal landsmanna".  

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tilefni til þess að Íslensk stjórnvöld leggi þessa hugmynd um lagningu sæstrengs til hliðar.


mbl.is Könnunarviðræður um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband