Framar ber að hlýða Guði en mönnum

Hérna er endurbætt og stækkuð útgáfa af pistli mínum sem birtur var í Kristblogginu sl. föstudag.

Samkvæmt frétt í Visir.is í dag “ályktaði Kirkjuþing án mótatkvæða að prestum þjóðkirkjunnar væri óheimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar uppfylltu þeir lögformleg skilyrði þess að ganga í hjúskap”. Gerir þetta að engu rétt presta til þess að fylgja eigin samvisku eða trúarsannfæringu.

Prestar þjóðkirkjunnar gangast undir embættiseið í upphafi prestmennsku sinnar þar sem þeir heita því að boða Guðs orð hreint og ómengað. Biblían kennir berlega að hjónaband sé á milli karls og konu og að halda einhverju öðru fram er rangfærsla á Guðs orði.  

Kirkjunni ber ekki undir neinum kringumstæðum að gera málamiðlanir í kennslu sinni eða athöfnum til að koma til móts við þann tíðaranda sem ríkir í þjóðfélaginu hverju sinni.  

Það er með öllu óásættanlegt að þjóðkirkjan hafi látið undan vilja lítilla þrýstihópa, aðgangshörðum fjölmiðlamönnum, pólitíkusum og eigin róttæklingahópi fremur en Guði. Og víki þannig frá tryggð við Orð Guðs. Áður fyrr var viðhorfið hér á landi að þar sem greindi á Guðs lög og manna lög þá skyldu Guðs lög gilda. Nú hefur þessu verið snúið við.  Nú ætlar þjóð­kirkj­an að lúta í duftið fyrir vilja Sam­tak­anna 78 og nýrra hjú­skaparlaga sem ganga í ber­högg við kristna og postul­lega siðferðis­hefð.

Finnst mér að orð Péturs og hinir postulanna þegar þeim var fyrirmunað að boða fagnaðarerindið í Jerúsalem eiga við vel hér: “Framar ber að hlýða Guði en mönnum”. (Post 5,9) Fyrr í sömu bók þegar Pétur og Jóhannes höfðu verið kallaðir fyrir ráð æðstu prestanna, höfðingjanna, öldunga og fræðimanna, sem "bönnuðu þeim algjörlega að tala eða kenna í Jesú nafni” svöruðu þeir: “Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt fyrir augum Guðs að hlýðnast yður fremur en Guði” (Post. 4.19)

Er til of mikils mælst að, Kirkjuþing, prestar og biskupar Þjóðkirkjunnar fari eftir þessum orðum Nýja testamentisins í stað þess að beygja kirkju sína undir veraldarhyggju sem stríðir gegn trú og siðum kristinnar kirkju í nærfellt 2000 ár? Með samþykkt samvizku-nauðungarinnar, á Kirkjuþingi, er líklega lengra gengið í róttækri kristindóms-andstöðu í þessu máli en í nokkurri annarri kirkju í heiminum.

Orð Guðs ber að vera sú mælistika sem þjóðkirkjan miðar starf sitt og kennslu við.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband