Verjum fóstur í móður kviði - Verjum lífið

    Talsmenn frjálsra fóstureyðinga saka andstæðinga sína oft um kaldranaskap og dómsýki gagnvart konum, sem hafa látið eyða fóstri. En það vakir ekki fyrir okkur, sem teljum frjálsar fóstureyðingar ekki ásættanlegt fyrirbæri að dæma neina þá manneskju, sem leitar eða hefir fengið fóstureyðingu framkvæmda. Á það ber að leggja áherslu að framkvæmd fóstureyðinga leiðir m.a. til vanmats á manngildi og brýtur á helgi lífsins. Það getur vissulega legið nærri að líta svo á, að þeir sem vilja frjálsar fóstureyðingar, hafi takmarkaðan skilning á mannréttindum, manngildi eða helgi lífsins.

    Nú erum við yfirleitt alin upp við það, að íslensk lög séu nokkur mælikvarði á rétt og rangt. Lög heimila konum að láta eyða fóstri sem þær bera undir belti að uppfylltum vissum skilyrðum ma. þegar lífi konu er stefnt í hættu við áframhaldandi meðgöngu, vegna nauðgunar eða vegna félagslegra aðstæðna móður. Óbeint er konum sagt, að barn hafi ekkert manngildi, fyrr en eftir lok 16. viku samkvæmt núgildandi löggjöf, nema því aðeins, að kona kjósi sjálf að líta svo á, að það eigi að njóta helgi lífsins. Ekki er óeðlilegt, að þetta komi til með að móta afstöðu kvenna þegar tekin er ákvörðun um fóstureyðingu.

    Fyrir Alþingi liggur frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem lögleiðir dráp á vaxandi ungviði í móður kviði allt til enda 22 viku og Sjálfstæðisflokkurinn styður. Hér hefur eitthvað meira en lítið skolast til í siðum okkar, að ætla að lögleiða eyðingu á hálfvöxnum börnum. En svona eru stjórnmálin að þróast. Með því sannast að sumir hafa augu en sjá ekki. Því menn virðast ekki vakna. Fólk á Alþingi fylgir hvert öðru að málum og jánkar þessu frumvarpi í hræðslu um að annars verði það talið gamaldags og afturhaldssamt sem á ekki upp á pallborðið hjá allt of stórum hópi fólks. Hefur núverandi ríkisstjórn látið glepjast að styðja blóðugar árásir á lífið í stórauknum mæli því hræðilegt fóstureyðingar frumvarp heilbrigðisráðherra um morð undir felunafni, á ófæddum börnum allt inn í sjötta mánuð meðgöngu liggur fyrir sem stjórnarfrumvarp.

    Ég vona að hinn almenni borgari mótmæli þessu á einn eða annan hátt svo það sjáist td. á Facebook á net-fréttamiðlum eða í blöðum. Engin gífuryrði þarf, heldur hófsamt en ákveðið, nei takk. Því það er aðeins fjöldinn sem getur stöðvað þetta, og hann getur það mikið frekar en einhver sértæk rök fáeinna manna. Og skoðanir kvenna eru sérstaklega mikilvægar.

    Ef við venjum okkur á þá hugsun að eðlilegt sé að deyða barn í móður kviði, þá missum við öll saklaus tengsl við lífið, verðum að sakamönnum. Sá sem ver lífið hefur mjög góðan málstað og honum verður umbunað á einn eða annan hátt. Verjum fóstur í móður kviði. Verjum lífið.

    Hér fyrir neðan geta menn farið inn á ísland.is og skráð sig á lista gegn ofangreindu fóstureyðingaframvarpi sem heimilar dráp á börnum allt til enda 22 viku og það án þess að nein sérstök ástæða liggi þar að baki nema þá að móðirin vilji það.

https://listar.island.is/Stydjum/39

    Við gerð þessa pistils studdist undirritaður við grein eftir séra Þorberg Kistjánsson (1925-1996) sem birtist í fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, 1 tbl. (mars 1993), s. 1-3. Einnig var ýmsur fróðleikur fenginn af Facebook síðu Guðmundar Pálssonar læknis og lífsverndar sinna.

Steindór Sigursteinsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband