Hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að færa úr höndum Þjóðkirkjunnar

Samkvæmt frétt á Mbl.is í dag lét Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafa eftir sér að hjónavígsla sé "löggjörningur" sem hafi "réttaráhrif.  Og svo vitnað sé áfram í orð hans að "Ein­hverra hluta vegna hafa ýms­ir í frjáls­um fé­laga­sam­tök­um heim­ild til að fram­kvæma þenn­an lög­gern­ing. Með því eru þeir op­in­ber­ir sýsl­un­ar­menn."

Ég verð að segja að hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að taka úr höndum kirkjunnar manna.  Að færa þessa athöfn niður á veraldlegt plan og láta embættismenn utan þjóðkirkjunnar og annara kristinna trúfélga sjá um þessa athöfn er vanvirðing við kristna trú og Guðs Orð.  

Hjónabandið er heilög stofnun, fundin upp af Guði, sem er sagt fyrir um í Biblíunni.  En í Matteus 19,5 stendur; "Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður."

Þjóðkirkjan má teljast lánsöm að hafa tvo biskupa sem ekki láta veraldlegar hugmyndir færa sig út af laginu varðandi það að prestar fái að halda samviskufrelsi sínu þegar kemur að því að ákveða hvort þeir gefi saman tvo einstaklinga af sama kyni.  Þau eru Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands og Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholtsumdæmi.  

Það er mikilvægt að Þjóðkirkjan láti ekki bifast þegar veraldarhyggjan og vantrúaröflin gera atlögu að kristinni trú í landinu og því sem Orð Guðs heldur fram.  Páll postuli sagði í bréfi sínu til Tímóteusar; "til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans".  1 Tím 3,15  

Eigum við að láta tíðarandann ráða för þegar kemur að þjónustu kirkjunnar manna? - eða að láta Guðs orðið ráða för?  Eins og Páll sagði á kirkjan að vera stólpi og grundvöllur sannleikans.  Kristið fólk og kristin kirkja eiga að vera ljós og salt í heiminum.  "Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum".  Matteus 5,13

Guð gefi Þjóðkirkjunni og hinum kristnu söfnuðunum náð til þess að vera salt og ljós í heiminum og halda fast við sannleikann sem er Guðs Orð.


mbl.is Trúfélög sjái ekki um hjónavígslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjónavígsla er eldri en kristni, eldri en Guðs orð og fer fram innan allra trúfélaga. Það er ekkert sem gerir hjónavígslu sér kristna athöfn og ekkert sem gerir hana trúarlega athöfn.

Þegar Mattheusarbók var skrifuð hafði fólk um allan heim sem aldrei hafði heyrt á Krist og föður hans minnst stundað hjónavígslur í tug þúsundir ára.

Kristin hjónavígsla er rakin til tólftu og þrettándu aldar þegar prestar fóru að taka þátt og kirkjan tók að sér hjónavígslurnar. Fyrir þann tíma var hjónavígsla kristinna veraldlegur "löggjörningur sem hafi réttaráhrif" framkvæmd af embættismanni.

Espolin (IP-tala skráð) 30.9.2015 kl. 01:00

2 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Komdu sæll Espolin. Að sjálfsögðu eru hjónavígslur stundaðar af öllum trúfélögum. Í Nýja og Gamla testamentinu er ekki beint talað um hjónavígslur en það er talað um brúðkaup.  Í 1 Mósebók 29,27 stendur "Enda þú út brúðkaupsviku þessarar. Þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár".  Guð er höfundur hjónabandsins eins og hann er skapari alls.  Í hugum kristinna manna er hjónavígslan trúarleg athöfn sem ekki ber að hrófla við með því að færa hjónavígslur frá prestum trúfélaga yfir til embættismanna utan trúfélaga. Einhversstaðar stendur að hin Evangelíska Lúterska Kirkja sé sjálfstætt starfandi trúfélag en studd af ríkinu. Ríkinu ber ekki að koma fram með yfirgangi gagnvart þjóðkirkjunni og færa hjónavígslur úr höndum presta hennar.  Það skiptir ekki máli hvort hjónavígslur innan kirkjunnar hófust á 12 eða 13 öld eða fyrr, þessi athöfn er heilög í hugum kristinna manna og á að vera framkvæmd af presti innan kirkjunnar.  Það væri mikil frekja og yfirgangur af stjórnvöldum ef þessi athöfn væri tekin frá kirkjunni.  Það er nokkuð sem kirkjunnar menn munu ekki sætta sig við.

Steindór Sigursteinsson, 30.9.2015 kl. 18:53

3 identicon

Ríkinu ber ekki að koma fram með yfirgangi gagnvart þjóðkirkjunni og færa hjónavígslur úr höndum presta hennar. Er rétt svo langt sem það nær.      Ríkinu ber ekki að koma fram með yfirgangi gagnvart fullum ökumönnum og færa ökuskírteinið úr höndum þeirra. Það er ekki yfirgangur að taka leifi af þeim sem ekki fara að þeim reglum sem gilda.

Prestar eru ekki að gefa saman nema þeir hafi til þess heimild frá ríkinu, eins og allir aðrir sem það gera. Eina skilyrðið sem þarf að fullnægja til að geta gift er heimild frá stjórnvöldum. Fylgi heimildinni kvaðir um að fólki sé ekki mismunað verða þeir sem vilja halda sínu leifi að fara eftir því. Enda giftingin framkvæmd í umboði ríkisins en ekki Guðs.

 

Espolin (IP-tala skráð) 1.10.2015 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband