Íslensku Bolludags bollurnar eru lostæti sem gott er að bíta í.

Sá góði siður að bjóða upp á rjómabollur á Bolludag barst til Íslands seint á 19 öld, með áhrifum frá erlendum bökurum.  Virðist uppruni þess siðar að eiga uppruna sinn í að fólk á Norðurlöndunum neytti ýmis góðmetis á þriðjudegi rétt fyrir föstutímabil sem byrjaði 7 vikur fyrir páska.  En Íslendingar færðu bolludaginn yfir á mánudaginn til að trufla ekki hefðbundinn matarsið sprengidagsins.  Á síðustu áratugum hefur bolluátið þó færst að hluta yfir á sunnudaginn, og er það vel því fátt er skemmtilegra en að setjast niður með fjölskyldu eða vinum og fá sér bollur áður en vinna og aðrar kvaðir hversdagsins taka við á mánudeginum.  Eru bollurnar ýmist vatnsdeigsbollur sem eru mjúkar og safaríkar og síðan gerbollur sem eru þéttari í sér.  Eru þær yfirleitt með róma og sultu inn í og með súkkulaði eða glassúrhjúp ofan á.  En nú til dags má oft sjá bollur í bakaríum og búðum með alls konar kremi í ýmsum litum.

Sá siður að börn búi sér til bolluvendi og flengi foreldra sína eða aðra með bolluvendi kom hingað til lands snemma á 19 öld með dönskum kaupmönnum.  Eru Bolluvendirnir búnir til úr priki sem litríkir borðar eru límdir á.  Og er hugsunin sú að börnin bolli foreldra sína þegar þau eru ný komin á fætur, og upphaflega taldist flengingin ekki gild nema barnið væri fullklætt en sá eða sú sem bolluð væri, ennþá í náttfötunum.  Átti barnið að kalla Bolla, Bolla ! þegar það flengdi og átti sá sem Bollaður var að færa barninu eins margar bollur og flengingarnar voru.  Tel ég að betra sé þá að vera snöggur að víkja sér undan og láta ekki bolla sig of oft til að forðast of mikil Bollu- útgjöld.  Ég minnist þess í æsku að ég bjó til bolluvönd í skólanum, en ég sá ekki ástæðu til þess að nota hann því ég fékk mínar bollur heima þrátt fyrir að hafa ekki bollað neinn.

Ég hef alltaf verið hrifinn af bollum og líkar mér best við gerbollur því þær eru mjög saðsamar og líkar mér þær með nóg af sultu og hæfilega miklum rjóma.  Rjóminn vill gjarnan leka úr bollunni þegar bitið er.  Því er nokkur kúnst að neyta bollunnar svo vel fari.
Það skemmtilegasta sem ég minnist í sambandi við Bollumenninguna á Íslandi er þáttur með Bjössa Bollu sem sýnd var í sjónvarpinu fyrir 25-30 árum síðan, á ég hann á DVD disk.  Er alveg einstakt að fylgjast með Bjössa þegar hann býr til Bollurnar.  Vil ég segja að það á hvern hátt hann bjó til bollurnar er ekki samkvæmt því sem ég tel góð vinnubrögð við bollubakstur.  Er með ólíkindum hve Bjössi kemur skemmtilega fram í þættinum.  Er hreint ótrúlegt skopskynið  í þættinum og svipbrigði og tal Bjössa alveg einstakt.  Þættinum lýkur síðan að sjálfsögðu á því að Bjössi fær sér Bollu.
Það er gott að setjast niður eftir amstur dagsins með fjölskyldu eða vinum og fá sér bollu.

Kær kveðja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband