Óréttlætanleg eignaupptaka á aðstöðu einkaflugmanna, flugskóla og minni flugfélaga.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Reykjavíkurborg hefur ráðgert að taka yfir landrými það á Reykjavíkurflugvelli, sem nefnast "Fluggarðar".  Er það svæði þar sem einkaflugmenn, Flugskólar og nokkur minni flugfélög hafa aðstöðu og flugskýli fyrir flugvélar sínar.  Í síðustu viku samþykkti Reykjavíkurborg deiliskipulag, þar sem gert er ráð fyrir að Fluggarðar víki fyrir annarri byggð strax á næsta ári.

Ég á varla orð til að lýsa vanþóknun minni á fyrirhugaðri aðgerð Reykjavíkurborgar að flæma burt þeirri starfsemi sem þarna þrífst, með eignaupptöku og niðurrifi á flugskýlum og öðrum fasteignum einkaflugmanna, flugskóla og flugfélaga.  Er þetta niðurrif að ég tel algjörlega ólöglegt þar sem Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja á svæðinu og hyggst ekki greiða þeim bætur. Hér er verið að ýta þeim flugrekstraraðilum sem hlut eiga að máli og einkaflugmönnum út á kaldan klakann.  Á svæðinu eru að jafnaði 85 flugvélar vistaðar í flugskýlum sem telja alls um 8000 fermetra, og að starfsemi þeirri sem fer fram á svæðinu koma nokkur hundruð manns.  Enginn flugvöllur kemur til greina fyrir starfsemi þessa, Keflavíkurflugvöllur getur ekki tekið við flugnáminu og einkafluginu, þar sem flug lítilla flugvéla og stórra þotna passar ekki saman.  Þar sem mikil hætta skapast á árekstrum milli kennsluvéla og farþegavéla að maður tali ekki um öfluga hvirfla sem stórar flugvélar skapa sem geta skapað mikla hættu fyrir einkaflugvélar.

Reykjavíkurflugvöllur er eins og kjörlendi fyrir flugskóla, því hér er  um að ræða flugvöll mjög vel tækjum búinn og með hæfilegri umferð flugvéla sem gera flugnámið meira krefjandi.  Að setja starfsemi flugskóla á lítinn flugvöll eins og á Selfoss eða á Hellu mundi gera námið mjög einhæft og takmarkað hvað varðar þjálfun í talstöðvarsamskiptum og maður talar nú ekki um vöntun á ýmiskonar aðflugs- og flugleiðsögu tækjum sem fyrirfinnast á stærri flugvöllum ásamt flugturni með flugumferðarstjórn.  En það er nauðsynlegt fyrir flugnema sem hyggja á áframhaldandi nám með atvinnuréttindum.

Ég vil hvetja borgarstjórn Reykjavíkur til að hætta við fyrirhugað niðurrif á Fluggörðum.  Sú starfsemi sem þarna fer fram er mikið þjóðhagsmuna-mál með hundruðum starfsfólks sem þarna hefur lifibrauð sitt.  Þetta er ekki aðeins niðurrif á einhverjum byggingum til þess að hægt sé að reisa þar íbúðabyggð heldur er hér um stærra og víðfeðmara mál að ræða.  Það er hætta á að starfsemi flestra flugskóla á Íslandi hreinlega þurrkist út.  Það er á engan annan stað að venda fyrir þá flugrekstraraðila sem þarna eru og einkaflugmenn í Reykjavík.  Á þessi sjónarmið ber Reykjavíkurborg að líta.  Ef Reykjavíkurborg hættir ekki við fyrirhugaðar aðgerðir á þessu svæði er það skoðun mín að Ríkisstjórninni beri að leggja lögbann á þessar aðgerðir.  Því hér eru hagsmunir á ferðinni sem snerta hag allrar þjóðarinnar.

Kær kveðja.

 


mbl.is Enginn vill einka- og kennsluflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband