Hugleiðing um Kristna trú og stjórnmál.

Núna þegar styttist í kosningar er gott að leiða hugann að því hvað það er sem helst fær eflt hag Íslensku þjóðarinnar og fólksins í landinu.  Stjórnmálaflokkar og framboð hafa margar góðar lausnir sem fært geta okkur margskonar umbætur á ýmsum sviðum lífs okkar og afkomu.   Það er eitt sem ekki má gleymast í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur í dagsins önnum, í vinnu og leik og núna í aðdraganda kosninga, en það er: Guð almáttugur skapari himins og jarðar sem vill og er fær um að hjálpa okkur.  Hann sendi okkur son sinn Jesú Krist, til að koma sem lítið barn, lifa á meðal manna, kenna okkur veginn til hjálpræðis og hvernig við eigum að haga lífum okkar og síðan að vera deyddur, krossfestur fyrir syndir okkar og að síðustu að rísa upp á þriðja degi.  Í trúnni á hann höfum við öruggan aðgang að Guði og getum komið til hans með það sem okkur liggur á hjarta, getum beðið til hans og ef við biðjum samkvæmt hans vilja bænheyrir hann okkur.
Ég tel að Kristin  trú og Kristin gildi séu eins og meira óljós í hugum margra landsmanna en fyrir nokkrum árum og áratugum.  Kristinni trú í þjóðfélaginu hefur verið, eins og ýtt til hliðar í sumum þáttum mannlífsins.  Kristilegri kennslu og Kristilegum áhrifum hefur veið eins og meira og meira ýtt út úr skólakerfinu.  Kristnifræðikennsla í Grunnskólum er ekki eins góð og ýtarleg og þegar sá er þetta ritar var í skóla, og það má segja að Kristin trú sé núna aðeins kynnt lítillega ásamt öðrum trúarbrögðum í skólum landsins.  Heimsóknir Presta og Gídeonmanna og annara sem boða fagnaðarerindið eru ekki leyfðar í mörgum grunnskólum landsins. 
Mér finnst að þar sem Kristin trú hafi að einhverju leiti verið á undanhaldi á Íslandi þá hafi almennu siðferði hnignað í samfélagi okkar á síðustu árum og áratugum.  Ég sé það í mörgum þáttum mannlífsins, eins og framkomu fólks manna á milli, maður heyrir það í fréttum að fólk eigi í útistöðum hvert við annað meira en áður var.  Hegðun fólks á netinu er líka oft á tíðum mjög slæm, tíðni glæpa þar á meðal nauðgana og ofbeldis, hefur aldrei verið eins mikil og undanfarin ár, fólk ber minni virðingu fyrir valdhöfum og hegðun fólks á Alþingi Íslendinga er ekki eins og við áttum að venjast fyrir nokkrum árum.
Mér finnst að Kristin trú sé eins og meðalið við þessu öllu.  Að hún sé eins og saltið sem Jesús Kristur talaði um, sem kemur í veg fyrir siðspillinguna og hnignunina í þjóðfélaginu.  Í Biblíunni, Guðs orði stendur:
"Þér eruð salt jarðar.  Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?  það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum."  Matteus 5:13  Guðs orðið kennir okkur að greina gott frá illu og feta hinn rétta veg, og að lifa hvern dag öðrum til blessunar.
Ég vil hvetja alla sem starfa að stjórnmálum og alla þá sem þetta lesa, að koma með málefni og vandamál líðandi stundar til Guðs, og treysta á hann sem skapað hefur alla hluti og allt vald hefur á himni og jörðu.  Það mundi verða þeim og þjóðinni til mikillar gæfu og blessunar.  Mættu Kristin trú og Kristin gildi ráða í gjörðum þeirra sem að stjórn Íslensku þóðarinnar koma eftir næstu kosningar og mættu Kristin gildi ráða við gerð laga í stjórnkerfinu.  Mig langar til að segja að Jesús Kristur og trúin á hann er besta lausnin fyrir Íslendinga og allan heiminn.
Jesús Kristur, Guðs sonur dó á krossi fyrir þig til að borga gjaldið fyrir syndir þínar. 
Þegar hann var í Getsemanegarðinum, áður en hann var krossfestur, vissi hann hvað yfir hann mundi koma, og hugsunin um að mega sleppa frá þessu öllu, þar meina ég krossfestingunni, kom upp í huga hans.  Hann bað til föður síns:  "Ef verða má, þá fari þessi kaleikur frá mér, þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt".  Matteus 26:39b
En hann harkaði af sér og lét þessa hugsun hverfa sér úr huga.  Hann var handtekinn og dæmdur til dauða, húðstrýktur og þyrnikóróna sett á höfuð hans, og hann bar kross sinn upp á Golgatahæð, þar sem  hann var krossfestur.  Hann gerði þetta allt vegna þín til þess að þú mættir eignast eilíft líf í gegnum trú á hann.
Skuldabréfið varð að greiða.  Guð varð að láta son sinn koma og deyja fyrir þig, til að greiða skuldabréfið vegna synda þinna.  Þannig varð að fullnægja öllu réttlæti.  En þú þarft að taka á móti þessari gjöf.  Í Biblíunni, Guðs orði stendur:  "því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf."  Jóhannesarguðspjall 3:16
Tak á móti Jesú Kristi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband