Rís þú unga Íslands merki

Við höldum í dag upp á sjötíu og þriggja ára afmæli hins endurreista íslenska lýðveldis. Það er ekki langur tími en á sér þó langa sögu og aðdraganda. Þjóðveldið forna er þess hvöt og kveikja. Og afmælisdagurinn er Jóns Sigurðssonar.

Líklega hefur þjóðerniskennd íslendinga aldrei verið sterkari, né meiri samheldni ríkt meðal þjóðarinnar en 17. júní 1944, þegar lýðveldið var stofnað. Þjóðaratkvæðagreiðslan nokkru áður sýndi þetta glöggt og ekki síður mannfjöldinn, sem fagnaði á Þingvöllum, þrátt fyrir einhverja mestu rigningu, sem um getur á þeim helga stað. Öllum þeim, sem staddir voru á Þingvöllum 17. júní 1944, hlýtur að verða harla minnisstæður sá sögufrægi dagur.

„þann dag er regnið streymdi um herðar þér og augu og skírði þig og landið til dýrðar nýjum vonum" eins og segir í „ Vorkvæði um ísland" eftir Jón Óskar.

Þetta var í sannleika langþráður dagur mikilla fyrirheita, þótt skiptar skoðanir kunni að vera um, hversu þau fyrirheit hafi rætst. Sjálfstæðisbaráttan var farsællega til lykta leidd, að svo miklu leyti sem slík barátta tekur nokkum tíma enda. Mætti sá andi einingar og samheldni, sem þá ríkti, endurvekjast nú og varðveitast sem lengst á ókomnum dögum.

Árið 1918 var úrslitaár, þegar sambandslögin voru sett. Það lá í loftinu, að heimildin um uppsögn sambandsins, að tuttugu og fimm árum liðnum, yrði notuð og stofnað lýðveldi með forseta í stað konungs. Hér er engin arfsögn um innlent konungdæmi, né skilyrði með svo fámennri þjóð.
Þjóðin var einhuga bæði árið 1930 í minningu þúsund ára afmælis Alþingis og um stofnun lýðveldis fyrir 73 árum. Þessa er gott að minnast, því ekki er alltaf lygnt og ládautt, á yfirborðinu, a.m.k. á líðandi stund með þjóð okkar, Svo hefir og reynzt í harðskeyttri sjálfstæðisbaráttu. Þó réttinn hafi orðið að sækja í áföngum á aðra öld frá tilkomu Jóns Sigurðssonar, þá hefir jafnan stefnt í rétta átt.


mbl.is Öryggi landsmanna dýrmætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband